Ættleidd af ofbeldismanninum

Aðsend grein:

– TW vegna frásagnar af ofbeldi –

Fyrsta ofbeldið sem ég man eftir af hálfu stjúpföður míns var þegar hann sló mig svo þéttingsfast utan undir að ég fékk fossandi blóðnasir. Ég var sex ára og honum mislíkaði það hve fast ég hafði lokað dyrunum að herberginu mínu. Hann var nýfluttur inn á heimilið og ég get ennþá upplifað hina trylltu tilfinningablöndu undrunar og skelfingar sem frysti mig í sporunum áður en ég fór að hágráta á þessu augnabliki.

Síðasta ofbeldið sem hann beitti mig innan veggja heimilisins var þegar hann tók mig hálstaki við matarborðið og tróð upp í mig af miklu afli matnum sem hann ætlaðist til að ég borðaði með fjölskyldunni. Ég náði að slíta mig lausa og hlaupa út úr eldhúsinu en hann kom á eftir mér og reif í mig af svo miklu afli að brjóstahaldarinn minn slitnaði. Ég var sautján ára og flutt að heiman, af augljósum ástæðum.

Árin ellefu þarna á milli voru stöðug martröð uppfull af andlegu og kynferðislegu ofbeldi, einstaka líkamsmeiðingum, brjálæðisköstum og hótunum. Þetta byrjaði illa en magnaðist upp á kynþroskaskeiðinu. Ég man eftir að hafa hugsað til baka um það leyti sem ég var að klára grunnskóla og uppgötvaði að ég vissi ekki hvenær ég hefði síðast sofnað þurreygð. Öll kvöld grét ég mig í svefn, lamandi skelfingin, niðurlægingin og óttinn samofin í risavaxið grjót í maganum. Ég kveið fyrir öllu, var sífellt á nálum og í krónískri viðbragðsstöðu alla daga.

Hann tók óútreiknanleg bræðisköst, uppnefndi mig, kenndi mér að ég væri ógeðslega útlítandi, geðveik í hausnum, einskis nýt og ætti enga framtíð. Oft sendi hann mig til baka að skipta um föt þegar um fínni tilefni var að ræða, lét mig klæðast víðum fötum af móður minni til að fela ógeðslegan líkama minn betur fyrir öðrum. Þegar ég lét illa að stjórn að hans mati var ég læst inni í herberginu mínu klukkutímum saman, allt að tveimur sólarhringum. Ég þurfti að banka á herbergisdyrnar innanverðar til að fá að komast á klósettið og á matmálstímum slengdi móðir mín skammtinum mínum þegjandi inn til mín, nema þegar hún kaus frekar að leggja mér lífsreglurnar.

Ég var nýlega fermd þegar kynfaðir minn hafði samband í fyrsta sinn og vildi taka upp samskipti við mig. Léttirinn og kvíðablandin gleðin sem ég upplifði eftir það óvænta símtal voru ólýsanleg. Ég hafði skyndilega von um undankomuleið, þó ekki væri nema með reglubundinni umgengni við foreldri utan ofbeldisheimilisins. Það liðu ekki margir dagar áður en þeirri von var rænt af mér og mér kennt í eitt skipti fyrir öll hver eigandi minn væri.

Klukkan nálgaðist miðnætti og ég var farin að sofa þegar þau sóttu mig inn í herbergi, báðu mig að koma á fætur og tala við sig frammi. Þar sátu þau tvö fyrir framan mig og útskýrðu fyrir mér að þau vildu óska eftir samþykki mínu fyrir því að stjúpinn fengi að ættleiða mig. Þau vildu ekki sættast á það að minn raunverulegi faðir kæmi inn í myndina og teldu þetta vera okkur öllum fyrir bestu.

Ég brotnaði umsvifalaust niður í þúsund táradropa en örvæntingin og svartnættið sem umvafði líf mitt gáfu mér óvæntan mótspyrnukraft. Ég sagði NEI. Aftur og aftur og aftur sagði ég nei. Þau rökræddu og reyndu allar leiðir til að telja mér hughvarf en ég grét þeim mun ákafar og ítrekaði neitun mína. Nei-ið var ekki tekið gilt sem svar og þau héldu mér vakandi í þessu samtali alla nóttina. Á endanum fór stjúpinn að sofa en við mamma sátum tvær eftir. Loks sagði hún við mig: “ef þú segir nei mun það eitra líf okkar það sem eftir er”. Það var eitthvað við tóninn og festuna sem varð þess valdandi að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég stirðnaði af ótta, mér fannst í þessu felast einhver hótun sem ég skildi ekki og gafst á þessu augnabliki upp. Mér leið eins og hún væri að segja mér að slæmt gæti orðið enn verra og tilhugsunin varð mér ofviða. Ég hugsaði með mér að ég fyndi aðrar undankomuleiðir í ferlinu og ákvað að samþykkja um stundarsakir. Ég hafði varla sleppt orðinu þegar birti hryllilega yfir henni og hún sendi mig inn í svefnherbergi kvalara míns til að færa honum “góðu” fréttirnar.

Ég titraði og hágrét þegar ég opnaði dyrnar að hjónaherberginu og gat með herkjum þvingað mig til að segja lágum rómi: “ok, þú mátt ættleiða mig”. Helvítið á honum lét mig endurtaka mig og koma svo að rúmstokknum þar sem hann þreif mig til sín, dró mig niður að hálfnöktum líkama sínum, kyssti mig og grét af gleði á meðan hann endurtók í sífellu: “ég elska þig svo mikið”. Mig langaði að æla af ógeði og skelfingu en ég beið þetta af mér og fór svo aftur í háttinn. Þó ég væri ung upplifði ég þrúgandi byrði eignarhalds hans á mér, mér fannst hann hafa tekið sér splunkunýtt vopn í hendur og reynt að kalla það gjöf þó við vissum bæði að það væri blekkingin ein.

Fljótlega komst ég að því að ég hafði tvær útgönguleiðir áður en til ættleiðingar kæmi. Fyrst þyrfti Barnaverndarnefnd sveitarfélagsins að taka afstöðu og ég bjó mig undir að fræða fulltrúa hennar um ástandið á heimilinu, ekki bara í von um að ættleiðingarbeiðnin stoppaði þar, heldur vegna þess að ég vonaðist til að vera fjarlægð úr umsjá móður minnar og stjúpföður. Ef það gengi ekki vissi ég að Sýslumaður ætti að ræða við mig einslega og þar ætlaði ég að koma á framfæri mótbárum í öruggri fjarlægð frá hjónunum.

Til að gera langa sögu stutta endaði þetta þannig að Barnaverndarnefnd kom hvergi nærri heimilinu eða mér og áður en ég vissi af var ég stödd á skrifstofu Sýslumanns með ofbeldismanni mínum og móður. Sýslumaður spurði hvort ég kannaðist við að hafa undirritað pappírana sem fyrir hann voru lagðir. Ég játti því og skyndilega var allt stimplað og klárað. Þarna stóð ég frammi fyrir þeim hrollvekjandi veruleika að maðurinn sem rændi mig æskunni og unglingsárunum var orðinn löglegur faðir minn, kerfið hafði brugðist skyldum sínum og búið að banna kynföður mínum að hafa samband.

Mörgum árum seinna kallaði ég eftir gögnum málsins og leitaði til alls þriggja lögfræðinga í von um að fá ættleiðinguna fellda niður í ljósi mistaka og sinnuleysis hins opinbera í ferlinu en varð ekkert ágengt. Í millitíðinni höfðu heimildir um niðurfellingu ættleiðinga verið felldar út úr lögunum og sá ekkert þessa löglærða fólks neina leið til að leiðrétta þetta ofbeldisfulla ranglæti. Það varð mér mikið áfall þegar ég fann í gögnunum þetta bréf frá Barnaverndarnefnd:

Undir það ritar fólk sem ég kannaðist vel við. Sem hefði svo auðveldlega getað gert eitthvað fleira en að afgreiða málið án nokkurrar athugunar. Ekkert þeirra hafði komið á heimilið. Ekkert þeirra þekkti neitt okkar meira en á grundvelli kunningsskapar. Ekkert þeirra gat vitað með nokkurri vissu að óhætt væri að mæla með þessari ráðstöfun.

Þetta er því staðan:

  • Ég var beitt margvíslegu, langvarandi ofbeldi af stjúpföður mínum
  • Barnaverndarnefnd brást skyldu sinni algjörlega
  • Sýslumaður gætti þess ekki að ræða við mig eina og ganga úr skugga um minn raunverulega vilja
  • OFBELDISMAÐUR MINN ÆTTLEIDDI MIG GEGN VILJA MÍNUM og svo virðist sem ég fái engrar undankomu auðið

Af öllu því ofbeldi sem hann beitti mig var þetta það versta. Hann tók af mér samband mitt við kynföður minn eins lengi og honum var unnt. Hann þvingaði mig til að bera nafn sitt þannig að í hvert sinn sem ég þurfti að gefa upp fullt nafn var ég minnt á hrylling æsku minnar. Lengi vel gat ég ekki umgengist eða ávarpa menn sem báru sama nafn og hann, svo sterk var tengingin við hinar erfiðu minningar. Síðast en ekki síst beittu þau hjónin valdi og ógn til að undirstrika eign hans – eða þeirra – á mér, og ég veit ekki enn hvernig ég á að lifa með því að hann skuli hafa komist upp með það.