Rétturinn til að hafa líkama

There is no wrong way to have a body Mynd fengin að láni héðan: http://proud2bme.org/content/sunday-link-love-body-positivity-all-bodies

Ásdís Rán Gunnarsdóttir er tæplega fertug íslensk þyrluflugkona og glamúrfyrirsæta sem hefur gert allskonar ráðstafanir með líkama sinn, ímynd og útlit, til að geta búið ferilinn sinn til (aðallega síðarnefnda ferilinn þó), sinnt honum og haldið honum við. Það er hennar réttur. Með því hefur hún ekki afsalað sér skoðanafrelsi eða réttinum til að lifa án ofbeldis og níðs. Það eru réttindi sem hún afsalaði sér ekki heldur með því að vera kona sem segir skoðanir sínar tiltölulega umbúðalaust þegar henni dettur það í hug. Það er þó engu líkara en að fólkið á internetinu líti svo á. Viðbjóðurinn sem hefur verið látinn falla um konuna í kommentakerfum og samfélagsmiðlum undanfarna daga er ævintýralegur og óréttlætanlegur með öllu.

Nú má vel vera að Ásdís hafi sérstaka óbeit á feitum konum. Ég veit ekkert um það og mér fannst snappið hennar alls ekki þess eðlis að hægt væri að dæma um það út frá því. Ég hef ekki á tilfinningunni, ólíkt mörgum öðrum, að orðið „uppfyllingarefni“ hafi átt að vera einhverskonar code fyrir „oj hvað hún er feit“. Auk þess hefur hún að sjálfsögðu rétt fyrir sér þegar hún segir að þessi tilraun aðstandenda keppninnar til að bæta ímynd sína sé ekkert nema friðþægingarleikur, spilaður til að þagga niður í okkur reiðu bitru femmatussunum sem erum alltaf að mótmæla draslinu sem þessi keppni er.

Það að auka lítillega á fjölbreytileikann í líkamsvexti keppenda er tilraun til að reyna að breiða yfir þá staðreynd að keppnin er umfram allt keppni í staðalímyndum sem gengur út á það að hlutgera konurnar sem taka þátt í henni og konur almennt. Það er full ástæða til að efast um einlægan vilja aðstandenda til breytinga þegar staðlarnir í keppninni ytra eru fullkomlega óbreyttir. Það þarf ekki mikinn vilja til að efast um að stelpurnar sem brjóta óskrifuðu reglurnar um mittismál eigi sannfærandi séns á öðrum titlum en „vinsælasta stúlkan“.

Fegurðarsamkeppnir eru og verða ógeð. Þar mun aldrei ríkja nokkur einasti raunverulegur fjölbreytileiki. Þetta eru kornungar, hvítar, ófatlaðar cis-stelpur, meira að segja ógiftar og barnlausar því annað myndi gefa til kynna að þær væru hugsanlega spjallaðar [insert sjokk-emoji að eigin vali].

Samkvæmt málsvörn Ásdísar á Facebook var aldrei ætlunin að gera athugasemd við Stefaníu Töru eða líkama hennar heldur það á hvaða forsendum aðstandendur keppninnar ákveða að leyfa henni að taka þátt. Við getum kosið að efast um þá málsvörn og litið svo á að hún hafi verið að fatshamea. Við getum líka kosið að trúa henni. Og við getum rætt það á málefnalegum forsendum eins og okkur sýnist. En við getum ekki brugðist við í bræði okkar með því að níða Ásdísi fyrir útlitið. Ásdís Rán á nákvæmlega sama rétt á því og Stefanía Tara að vera til án þess að vera smánuð fyrir líkama sinn.

Slutshameið sem liggur að baki hatrinu sem nú vellur yfir Ásdísi Rán er svo sannarlega ekki hótinu skárra en fatshameið sem fólk heldur að það sé að mótmæla. Mér þætti vænt um að við hættum að hjarðníða konur sem við erum ósammála, sér í lagi á grundvelli útlits þeirra. Það má vera feit og hafa skoðanir á sama tíma. Það má vera með sílíkon og hafa skoðanir á sama tíma. Og hættum að vera til í að fegurðarsamkeppnir séu haldnar. Það er 21. öldin, andskotinn hafi það.