Erum við öll menn?

Höfundur: Elín Pjetursdóttir

Kynjað tungumál

Tungumálið okkar er kynjað tungumál. Sólin er hún, máninn er hann og tunglið er það. Oft skiptir þessi kynjun engu máli. Auðvitað er sólin ekki kona og máninn er ekki maður. Það vitum við öll mætavel. Í öðru samhengi skiptir þessi kynjun hinsvegar máli. Konur eru kvenkyns, menn eru karlkyns og fólk er hvorukyns hugtak sem er ágætis regnhlífarhugtak yfir konur, menn, börn og allt annað fólk, hvernig svo sem það kýs að skilgreina sig. Einhverra hluta vegna höldum við þó áfram að tala um fólk sem menn og notum menn sem regnhlífarhugtak yfir alla. Þetta réttlætum við svo með því að benda á að það sé hefð fyrir því í tungumálinu og að því séu konur í vissum skilningu líka menn.

Hefðin

Ég skil mætavel afhverju fólk notar hugtakið menn. Það er málvenja og henni er erfitt að breyta. Ég þarf til að mynda oft að vanda mig svo ég skrifi ekki kynjaðan texta og það tekur tíma og æfingu að hætta að tala sífellt um menn þegar við erum í rauninni að tala um fólk. Hefðin er lífseig en það þýðir þó ekki að hún sé endilega æskileg. Þvert á móti held ég að þessi tiltekna hef sé bæði arfavitlaus og skaðleg. Þegar við tölum sífellt um menn þá útilokum við konur, sem og alla aðra sem ekki skilgreina sig sem karlkyns, frá orðræðunni. Við hljótum öll að vera sammála um að það sé ekki af hinu góða.
Þegar við ávörpum hóp af fólki, fólk sem er af öllum kynjum, öllum stærðum og gerðum, fólk sem er allskonar, þá vænti ég þess að við viljum raunverulega ávarpa alla sem um ræðir. Ekki bara þá sem skilgreina sig sem karlkyns. Þegar ég mæti einhverstaðar og ég fæ blað í hendurnar þar sem stendur Vertu velkominn þá líður mér nefnilega alls ekki eins og ég sé velkomin, enda var ég ekki ávörpuð. Verið þið velkomin væri til að mynda töluvert betra ávarp. Ávarp sem raunverulega gefur til kynna að öllum viðstöddum sé sannarlega velkomið að vera á svæðinu.

Konur eru líka menn

Frasinn konur eru líka menn var áður fyrr notaður til að minna fólk á að konur eru engu síðri en menn og eigi skilið sömu réttindi og sömu möguleika og þeir. Á sínum tíma var frasinn góður til síns brúks og því má sannarlega ekki gleyma. Það þýðir þó ekki að frasinn eigi endilega við í dag.

Þegar bent er á að tungumálið sé notað á þann veg að konur, og aðrir sem ekki skilgreina sig sem karlkyns, séu útilokuð frá umræðunni með eilífu tali um menn, þá dúkkar iðulega einhver upp og minnir okkur á þennan gamla frasa, konur eru líka menn. Kaldhæðnin sem felst í því að nota gamlan femíniskan frasa til að þagga niður í femínistum dagsins í dag fer sannarlega ekki fram hjá mér. En þó femínistar síðustu aldar hafi notað þennan frasa í ákveðnum baráttumálum þá þýðir það ekki að setningin lýsi algildum sannleik, né að konur skuli ávalt skilgreindar sem menn. Sérstaklega ekki þegar stór hluti fólks upplifir karllæga notkun tungumálsins sem útilokandi. Persónulega finnst mér mjög undarlegt hversu margir vilja verja núverandi málhefð með kjafti og klóm. Væri ekki eðlilegra að við ynnum saman að því að breyta tungumálanotkuninni á þann veg að öllum sé gert jafn hátt undir höfði, sama hvort fólk skilgreinir sig sem karkyns eður ei?

Konur eru ekki menn – Konur eru konur

 Konur eiga sannarlega skilið að þeim sé sýnd samskonar virðingu og við sýnum mönnum. Ekki af því að konur séu líka menn, heldur af því að konur eru jafn mikils virði og menn og eiga þar af leiðandi skilið sömu réttindi, sömu tækifæri og sömu virðingu og menn. Við eigum líka öll skilið málshefðir og orðræðu sem tekur tillit til okkar allra.

Ég er ekki maður í neinum skilningi. Ég er kona, ég er manneskja, ég er allskonar, en ég er sannarlega ekki maður. Til dæmis myndi enginn segja um mig, sjáðu manninn þarna. Né myndi maðurinn minn kynna mig sem Elínu, manninn sinn. Það væri nefnilega skrítið, af því að ég er jú kona og ég vil gjarnan að fólk ávarpi mig sem slíka.