Að borða fíl

Höfundur: Sóley Tómasdóttir

Í kjölfar #metoo er samfélagið forviða yfir umfangi og alvarleika kynferðislegrar áreitni. Nú er uppi hávær krafa gagnvart valdhöfum og atvinnurekendum um að gripið verði til aðgerða til að tryggja öryggi kvenna á vinnumarkaði. Það er gott og blessað og óskandi að sú krafa verði tekin alvarlega.

Samt höfum við bara séð lítinn hluta vandans. Kynferðisleg áreitni er miklu umfangsmeiri en við höfum þegar séð. Hún viðgengst líka í öllum þeim starfsgreinum sem ekki hafa stigið fram og birtingarmyndirnar eru ólíkar eftir aðstæðum hverju sinni. Nemendur verða fyrir kynferðislegri áreitni og konur sem ekki eru á vinnumarkaði verða fyrir kynferðislegri áreitni. Hún á sér stað á skemmtistöðum og úti á götu og í barnaafmælum. Alls staðar.

Ofbeldi er vissulega alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis, en hún er engu að síður bara hluti af þeirri mismunun sem konur verða fyrir á hverjum degi. Í öllum stéttum, í öllum störfum og öllum daglegu athöfnum. Hver og ein þeirra er alvarleg út af fyrir sig og birtist, eins og #metoo sögurnar með ólíkum hætti eftir aðstæðum og stöðu kvennanna hverju sinni.

Það er stundum sagt að til að borða heilan fíl sé einfaldast að taka einn bita í einu. Það er rétt og þess vegna er #metoo mikilvægt. Það lýsir hluta af daglegum veruleika kvenna. En við verðum samt að vita að við erum að borða heilan fíl og við verðum að vita hvernig hann lítur út. Rétt eins og fíll er hvorki rani eða fótur, þá er kynjamisrétti ekki bara kynbundið ofbeldi.

Rétt eins og með kynbundið ofbeldi, hafa konur talað sig hásar í aldir um aðrar birtingarmyndir. Þær hafa myndað samtök og staðið fyrir vitundarvakningum með öllum mögulegum og ómögulegum hætti. En allt kemur fyrir ekki.

Ég veit að það er útópískt, enda væri það full vinna fyrir okkur allar, en hvað myndi gerast ef sambærilegt átak yrði gert fyrir hverja og eina birtingarmynd? -Ef konur myndu taka sig saman og lýsa reynslu sinni af til dæmis:

  • Að vera mismunað í launum?
  • Að hugmyndir þeirra séu ekki teknar til skoðunar fyrr en karl stingur upp á þeim?
  • Að vera sagt að róa sig þegar þeim er mismunað eða þær útilokaðar?
  • Að vera sagt að velja sér slagi, þeirra áherslur þurfi að bíða um sinn?
  • Að hafa ekki verið hluti af ákvarðanatöku af því hún fór fram í búningsklefa/golfi/laxveiði sem þeim var ekki boðið í?
  • Að fá ekki stuðning þegar þær tóku erfiðu slagina á meðan karlarnir voru bakkaðir upp af samstarfsmönnum/vinnufélögum?
  • Að vera aldrei nógu sæt/mjó/ung/há/lág og vel til höfð til að uppfylla útlitskröfur samtímans?
  • Að mæta algeru skilningsleysi yfir að vera útbrunnar eftir að hafa menntað sig, eignast börn og öðlast starfsframa fyrir fertugt?
  • Að lifa með “kvennavandamálum” á borð við blæðingar, legslímuflakk og breytingaskeið án þess að trufla vinnuveitendur, heilbrigðiskerfi eða samfélag, sem þó tekur fullt tillit til álagsmeiðsla knattspyrnumanna og kransæðasjúkdóma?

Þessi dæmi eru valin af handahófi, listinn er endalaus og konur eiga ekki að þurfa að verja tíma sínum í að segja og skrifa sömu hlutina aftur og aftur. Það er samt sem áður mikilvægt að fólk viti hvernig fíllinn lítur út og að hver einasti útlimur og hvert einasta líffæri skiptir máli. Ef markmiðið er að útrýma kynjamisrétti er ekki nóg að kroppa í húðina, hún grær aftur og það jafnvel með skráp sem verður enn erfiðara að eiga við seinna.

Það er kominn tími til að fólk horfist í augu við fílinn, stærð hans og umfang. Að borin sé virðing fyrir því þegar konur benda á einstaka afmarkaða þætti án þess að þúsundir kvenna þurfi að eyði tíma og orku í að draga upp nógu stóra mynd til að ekki sé hægt að horfa framhjá henni. Það þarf að taka alla þætti daglegs lífs til endurskoðunar og við þurfum öll að hjálpast að við það.

(Ég geri mér grein fyrir að samlíking við fílsát er ósmekkleg og ég er ekki að mæla með neinu slíku en datt bara ekki betri myndlíking í hug)