Gerum ráð fyrir þolendum

Þóra Kristín Þórsdóttir skrifar:

Í vikunni tilkynnti Reykjavíkurborg að nú ætlaði borgin að nýta skráningar á já.is til að senda Reykvíkingum smáskilaboð um götuhreinsanir. Þetta er framtíðin, enda er sniglapóstur mun óskilvirkari skilaboðaleið og afar óumhverfisvæn, og þessi þróun því afar jákvæð. Nema fyrir eitt. Það er þetta með skráningu símanúmera á já.is.

Nú er væntanlega hópur fólks sem hefur ekki áhuga á að fá þessar skilaboðasendingar og þarf því að geta afskráð sig, en það tekur væntanlega aðeins augnablik. Verra mál er hins vegar með þann- ískyggilega stóra- hóp fólks sem hefði áhuga á að fá umræddar tilkynningar en getur ekki, lífs og lima vegna, haft símanúmer sitt aðgengilegt á opinberum vettvangi. Í samfélaginu okkar er nefnilega hópur fólks sem lifir alla daga við ógn um ofbeldi og hefur því nauðbeygt látið taka sig af öllum opinberum símnúmera og heimilisfangalistum, fengið sér leyninúmer – jafnvel ítrekað- til að forðast áreiti og ofbeldi fyrrum maka og/eða annarra. Þess vegna þarf að opna fyrir þann möguleika að fólk skrái sig sjálft fyrir þjónustunni, á einhvern hátt þar sem trúnaður um símanúmer viðkomandi sé tryggður.

Þetta er eitt lítið dæmi um ákvörðun þar sem ekki er gert ráð fyrir þolendum ofbeldis en á vettvangi borgarstjórnar eru ótalmargar aðrar teknar sem hafa áhrif á líf þolenda. Þess vegna þurfum við meiri femínísma þar.

Höfundur skipar sjöunda sæti Kvennahreyfingarinnar í Reykjavík.